Staða mála í Thailandi

Við á Ferdin.is höfum verið að fá fyrirspurnir frá fólki varðandi ástand mála í Thailandi og hvort óhætt sé að fara þangað. Thailenski herinn hefur tekið völdin í landinu, að eigin sögn til þess að koma á stöðugleika í landinu. Sett hefur verið á útgöngubann í landinu frá kl 22:00 til 05:00. Hermenn eru ekki meira á ferðinni en venjulega, nema ef útgöngubannið er ekki virt.

Þessar aðgerðir hafa lítil sem engin áhrif á ferðamenn í landinu en þjónusta við ferðamenn er að mestu óbreytt fyrir utan það að opnunartími verslunar og þjónustu tekur mið af útgöngubanninu. Allir flugvellir eru opnir eins og venjulega og heimilt er að fara að og frá flugvöllum á öllum tíma sólahrings sé verið með flugmiða. Landamærastöðvar eru opnar, hótel og veitingastaðir eru opnir  sem og öll önnur þjónusta við ferðamenn. Samgöngur á sjó og landi eru samkvæmt venju þó með þeim takmörkunum sem útgöngubannið setur.  Síma og internet þjónusta er starfrækt allan sólahringinn. Að sjálfsögðu er rétt að viðhafa almennar varúðarreglur eins og að forðast staði sem fólk safnast saman á til að mótmæla og eins er öruggast að hafa vegabréfið við höndina þegar verið er á ferðinni.

Segja má að ferðamenn verði lítið varir við yfirtöku hersins, nema hvað varðar skertan opnunartíma og því engin ástæða til þess að hætta við Thailandsferð vegna þessa. Við hjá ferdin.is sjáum að þeir sem þekkja til láta ástandið ekki stoppa sig  og eru að bóka hjá okkur flugmiða í sumar ásamt því að við erum farin að selja í nóvember ferðina sem við förum með íslenskri fararstjórn.

You may also like...